Svíinn Olof Mellberg hefur verið ráðinn þjálfari bandaríska knattspyrnuliðsins St. Louis City sem leikur í MLS-deildinni.
Með liðinu leikur Dalvíkingurinn Nökkvi Þeyr Þórisson sem kom til St. Louis frá KA sumarið 2023.
Mellberg, sem er 47 ára gamall, átti langan feril sem leikmaður, spilaði lengst með Aston Villa á Englandi en einnig m.a. með Juventus á Ítalíu og Olympiacos í Grikklandi.
Hann hóf þjálfaraferilinn árið 2016 hjá Brommapojkarna í Svíþjóð og fór með liðið upp um tvær deildir á tveimur árum og í úrvalsdeildina. Eftir það þjálfaði hann Fremad Amager í Danmörku og Helsingborg í Svíþjóð áður en hann sneri aftur til Brommapojkarna þar sem liðið hefur haldið velli í úrvalsdeildinni undanfarin tvö ár.
St. Louis City hafnaði í 12. sæti af 14 liðum í Vesturdeild MLS á þessu ári og komst ekki í úrslitakeppnina. Nökkvi lék 30 af 34 leikjum liðsins og skoraði fjögur mörk.