Jude Bellingham, ein af stjörnum Real Madrid, var mikið orðaður við Liverpool í fyrrasumar en liðin tvö mætast í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu á Anfield í kvöld.
Liverpool hefur farið afar vel af stað í Meistaradeildinni og er í toppsætinu með fullt hús stiga eftir fjóra leiki. Evrópumeistarar Real Madrid hafa ekki farið eins vel af stað og eru aðeins með sex stig eftir fjóra leiki í 21. sæti.
Bellingham var til viðtals hjá TNT fyrir leikinn og var spurður út í sögusagnirnar í fyrrasumar, og hversu nálægt hann var að ganga til liðs við Liverpool.
„Ég var ekki eins nálægt því að fara til Liverpool og fjölmiðlar létu það hljóma,“ sagði Bellingham.
„Þegar Real Madrid bankar á dyrnar, þá hristir það allt húsið. Ég vil ekki vanvirða neinn, en þegar Real Madrid vill fá þig, þá er það miklu stærra,“ bætti Bellingham við.
Leikur Liverpool og Real Madrid hefst klukkan 20 og verður í beinni textalýsingu á mbl.is.