Tvær vítaspyrnur fóru forgörðum þegar Liverpool vann Evrópumeistara Real Madrid í fyrsta skipti í 15 ár, 2:0, í 5. umferð deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla á Anfield í Liverpool í kvöld.
Liverpool er í toppsæti Meistaradeildarinnar með 15 stig, fullt hús. Real Madrid er hins vegar í miklum vandræðum en Evrópumeistararnir eru með sex stig í 24. sæti.
Liverpool heimsækir Girona á Spáni í næstu umferð Meistaradeildarinnar en Real Madrid heimsækir Atalanta á Ítalíu.
Liverpool var sterkari aðilinn mestallan leikinn en á 52. mínútu skoraði Argentínumaðurinn Alexis Mac Allister fyrra mark liðsins.
Þá átti hann gott þríhyrningsspil við Conor Bradley og smellti boltanum í neðra fjærhornið, 1:0.
Aðeins nokkrum mínútum síðar fékk Real Madrid vítaspyrnu. Þá braut Andrew Robertson á Lucas Vázquez inn í teig og Francois Letexier dómari benti á punktinn.
Á hann steig Kylian Mbappé en Caoimhín Kelleher varði frá honum.
Liverpool-menn fengu þá vítaspyrnu á 69. mínútu leiksins. Þá lék Mohamed Salah sér að Ferland Mendy varnarmanni Real Madrid sem braut á honum.
Salah steig sjálfur á punktinn en skaut boltanum í utanverða stöngina.
Þrátt fyrir það bætti Cody Gakpo öðru marki Liverpool á 77. mínútu leiksins með skallamarki af stuttu færi eftir sendingu Robertson, 2:0, og þar við sat.