Í leikskrá enska knattspyrnufélagsins Tottenham Hotspur fyrir leik liðsins gegn Roma frá Ítalíu í Evrópudeildinni í London í kvöld var sagt frá andláti 97 ára gamals Íslendings.
Hann hét Hörður Björnsson og var stuðningsmaður Tottenham í um það bil 70 ár. Þetta var sagt um Hörð:
Hörður Björnsson frá Reykjavík á Íslandi, lést þann 17. október, 97 ára gamall. Hann var einn af okkar dyggu stuðningsmönnum til langs tíma, hann var gallharður stuðningsmaður í ein 70 ár og elsti skráði stuðningsmaður Spurs á Íslandi. Hans verður sárlega saknað af fjölskyldu og vinum.
Þess má geta að Hörður var afi Steinunnar Björnsdóttur, landsliðskonu í handknattleik, sem nú er með íslenska landsliðinu í Innsbruck í Austurríki og mætir Hollandi í fyrsta leiknum á morgun.