Enginn sem fyllir hans skarð

Harry Kane heldur um lærið eftir að hann tognaði í …
Harry Kane heldur um lærið eftir að hann tognaði í leiknum gegn Dortmund. AFP/Ina Fassbender

Vincent Kompany, knattspyrnustjóri Bayern München, segir að enginn einn leikmaður geti fyllt skarð enska framherjans Harry Kane sem verður ekki með liðinu næstu vikurnar.

Kane tognaði aftan í læri í leik Bayern og Dortmund í þýsku 1. deildinni um helgina og ólíklegt er að hann spili aftur fyrr en eftir áramótin.

„Hann mun að minnsta kosti missa af nokkrum leikjum. Það er ekki hægt að fylla hans skarð, maður fyrir mann. Hann er leikmaður í fremstu röð. En við verðum að leysa vandamálið á annan hátt,“ sagði Kompany þegar hann ræddi við fréttamenn um bikarleik liðsins við Leverkusen annað kvöld.

„Okkur vantar ekki gæðin í leikmannahópinn og það geta margir farið í framherjastöðuna. Til dæmis Thomas Müller, Mathys Tel, Serge Gnabry, Michael Olise og Leroy Sané. En Harry er búinn að skora 20 mörk og þú setur engan beint í hans stað,“ sagði Kompany.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka