Hetjan frá Sevilla fallin frá

Helmuth Duckadam fagnar eftir að hafa varið fjórða víti Barcelona.
Helmuth Duckadam fagnar eftir að hafa varið fjórða víti Barcelona. Ljósmynd/Reuters

Rúmenski knattspyrnumarkvörðurinn Helmuth Duckadam, sem öðlaðist heimsfrægð árið 1986 fyrir ótrúlega framgöngu í úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða, er látinn, 65 ára að aldri.

Helmuth Duckadam með Evrópubikarinn í Sevilla.
Helmuth Duckadam með Evrópubikarinn í Sevilla. Ljósmynd/Reuters

Duckadam varði mark Steaua frá Búkarest þegar liðið varð afar óvænt Evrópumeistari með því að leggja Barcelona að velli í úrslitaleik keppninnar í Sevilla á Spáni.

Leikurinn endaði 0:0 eftir góða frammistöðu Duckadams, en í vítaspyrnukeppninni gerði hann sér lítið fyrir og varði allar fjórar vítaspyrnurnar sem Barcelona tók.

Steaua vann vítakeppnina 2:0 og varð Evrópumeistari, fyrsta og eina rúmenska liðið sem hefur afrekað það.

Í kjölfarið var Duckadam einn þeirra sem tilnefndir voru í kjöri France Football á Gullboltanum, Ballon d'Or.

Duckadam hefði þarna átt að vera á hátindi ferilsins, 27 ára gamall, en þetta reyndist hans síðasti stórleikur. Nokkrum vikum síðar veiktist hann illa og spilaði ekki knattspyrnu í þrjú ár en lauk síðan ferlinum með lítt þekktu liði í rúmensku B-deildinni, Vagonul Arad.

Hann hafði aðeins spilað tvo landsleiki fyrir Rúmeníu þegar þarna var komið sögu og af sömu ástæðum urðu þeir ekki fleiri.

Kristján Jónsson fjallaði ítarlega um Duckadam í „Sögustund Morgunblaðsins“ á íþróttasíðum blaðsins árið 2013 og greinin var endurbirt á mbl.is árið 2019. Fyrir neðan má svo sjá myndskeið af vítaspyrnunum fjórum sem Rúmeninn varði gegn Barcelona.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka