Mótherjar Víkings ráku þjálfarann

Gunnar Vatnhamar fagnar marki gegn Cercle Brugge en leikmenn liðsins …
Gunnar Vatnhamar fagnar marki gegn Cercle Brugge en leikmenn liðsins eru dapir í bragði. mbl.is/Eyþór Árnason

Belgíska knattspyrnufélagið Cercle Brugge hefur rekið þjálfara karlaliðs félagsins, Miron Muslic.

Árangur liðsins undir hans stjórn þykir ekki ásættanlegur en eftir að hafa náð fjórða sætinu belgísku A-deildinni í fyrra og komist í Sambandsdeildina er liðið í næstneðsta sæti deildarinnar með fimmtán stig úr sextán leikjum. 

Kornið sem fyllti mælinn var ósigur gegn botnliðinu Beerschot, 3:2, um helgina.

Cercle tapaði einmitt fyrir Víkingi í Sambandsdeildinni, 3:1, á  Kópavogsvellinum í október en fyrir þann leik var einmitt fjallað um að Muslic stæði völtum fótum í starfi. Hann fékk hins vegar gálgafrest með því að vinna óvæntan útisigur á Royale Union, 3:1, þremur dögum eftir Víkingsleikinn, og síðan tvo leiki í kjölfarið, í bikar og deild.

Cercle hefur eftir tapið gegn Víkingi fengið  fjögur stig í Sambandsdeildinni, með 0:0 jafntefli gegn LASK Linz og 2:0 sigri gegn Hearts frá Skotlandi, en það var ekki nóg til að bjarga Muslic.

Jimmy De Wulf stýrir liðinu til bráðabirgða þar til fundinn verður þjálfari til lengri tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka