Edoardo Bove, ítalski knattspyrnumaðurinn sem hneig niður í leik Fiorentina og Inter Mílano í A-deildinni þar í landi í gær, er vaknaður á sjúkrahúsi í Flórens.
Ítalski fjölmiðillinn La Republicca skýrir frá þessu og segir að miðjumaðurinn ungi hafi byrjað á að þakka öllum kærlega fyrir að hafa komið sér til bjargar.
Hann var meðvitundarlaus eftir áfallið og var haldið sofandi á gjörgæsludeild sjúkrahússins í nótt.
Bove er 22 ára gamall og er í láni hjá Fiorentina frá Roma. Hann hefur skorað eitt mark í 11 leikjum í A-deildinni í vetur og hafði áður skorað tvö mörk í 65 leikjum með Roma. Bove hefur leikið 14 leiki með ítalska 21-árs landsliðinu og samtals 32 leiki fyrir yngri landslið þjóðar sinnar. Hann er samningsbundinn Roma til ársins 2028.
Leiknum var hætt eftir aðeins 16 mínútur vegna atviksins.