Ítalski knattspyrnumaðurinn Edoardo Bove segir að sitt stóra markmið sé að komast aftur inn á fótboltavöllinn sem allra fyrst.
Bove hneig niður meðvitundarlaus á sunnudaginn þegar lið hans, Fiorentina, tók á móti Inter Mílanó í ítölsku A-deildinni. Atvikið átti sér stað strax á 16. mínútu og leiknum var hætt í kjölfarið.
Í gærmorgun var tilkynnt að Bove væri vaknaður á sjúkrahúsinu í Flórens og hann sendi þá frá sér þakkarkveðjur.
„Ég vil spila aftur, hleypið mér aftur inn á völlinn,“ hafði Gazzetta dello Sport eftir leikmanninum í dag.
Umboðsmaðurinn Diego Tavano sagði á samfélagsmiðlum að hann væri afar ánægður með alla þá aðstoð og hvatningu sem Bove hefði fengið. „Takk Flórens, þetta er ástæðan fyrir því að við völdum ykkur. Takk öllsömul, ég hef aldrei fundið aðra eins hlýju frá fótboltaheiminum,“ skrifaði Tavano en Bove, sem er 22 ára gamall, er í láni hjá Fiorentina frá Roma.