Hrósar Daníel Guðjohnsen í hástert

Daníel Tristan Guðjohnsen
Daníel Tristan Guðjohnsen Ljósmynd/Malmö

Daníel Tristan Guðjohnsen skoraði sín þrjú fyrstu mörk fyrir aðallið sænska knattspyrnufélagsins Malmö er liðið sigraði Torslanda í bikarnum, 5:2, á sunnudag.

Sóknarmaðurinn, sem kom til Malmö frá Real Madrid árið 2022, kom inn á sem varamaður þegar hálftími var eftir af venjulegum leiktíma. Hann kom Malmö í 2:1 undir lok venjulegs leiktíma og tryggði liðinu síðan sigurinn með tveimur mörkum í framlengingunni.

Henrik Rydström þjálfari Malmö var kampakátur með Íslendinginn unga eftir leik en Daníel er yngsti sonur Eiðs Smára Guðjohnsen.

„Hann er með mikil gæði þegar kemur að því að klára færi. Hann var frá keppni í ellefu mánuði og því förum við varlega en ég hef sagt honum að hann fái tækifæri.

Það er gaman að fylgjast með honum og hans hugarfari. Hann er góður náungi og vorkenndi sjálfum sér ekki þótt hann væri lengi frá,“ sagði Rydström á blaðamannafundi eftir leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert