Jürgen Klopp gæti ráðið Erik ten Hag

Erik ten Hag.
Erik ten Hag. AFP/Oli Scarff

Hollenski knattspyrnustjórinn Erik ten Hag er einn þeirra sem kemur til greina sem næsti stjóri RB Leipzig í þýsku 1. deildinni.

Það er Sky Sports sem greinir frá þessu en Marco Rose, stjóri Leipzig, er valtur í sessi eftir slæmt gengi liðsins í undanförnum leikjum.

RB Leipzig situr sem stendur í fjórða sæti þýsku 1. deildarinnar með 21 stig, níu stigum minna en topplið Bayern München, en Leipzig hefur tapað þremur af síðustu fjórum leikjum sínum í deildinni.

Ten Hag á lista

Í frétt Sky Sports kemur meðal annars fram að forráðamenn þýska félagsins hafi sett saman lista yfir stjóra sem gætu tekið við liðinu af Rose.

Einn þeirra er ten Hag sem stýrði síðast Manchester United í ensku úrvalsdeildinni en Jürgen Klopp, fyrrverandi stjóri Liverpool, tekur við sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Red Bull-samsteypunni þann 1. janúar næstkomandi.

Klopp gæti því komið að ráðningu á nýjum stjóra félagsins, fari svo að Marco Rose verði látinn taka pokann sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert