Alþjóðanefnd knattspyrnusambanda, IFAB, hefur ákveðið að breyta knattspyrnulögunum vegna atviks sem átti sér stað í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í síðasta mánuði þar sem Mikael Arteta knattspyrnustjóri Arsenal var í aðalhlutverki.
Arteta slapp ranglega við rautt spjald í leik Arsenal og Inter Mílanó þar sem Spánverjinn snerti boltann þegar hann var ekki farinn úr leik. Dómarinn lét nægja að gefa Arteta gult spjald fyrir atvikið, þar sem Arteta var að reyna að koma leiknum af stað á ný sem fyrst.
Samkvæmt lögum og reglum hefði Arteta átt að fá rautt spjald. Carlos Corberan hjá West Brom og Derek McInnes hjá Kilmarnock hafa fengið rautt spjald fyrir svipuð atvik á undanförnum mánuðum.
IFAB hefur nú ákveðið að rétt refsing fyrir sams konar brot sé gult spjald í staðinn fyrir rautt. Þó er það enn rautt spjald ef stjóri kemur við boltann á meðan hann er enn í leik með það að markmiði að tefja eða stöðva andstæðinginn.