Hollenski knattspyrnumaðurinn Frenkie de Jong er til sölu en hann er samningsbundinn stórliði Barcelona á Spáni.
Það er spænski miðillinn Sport sem greinir frá þessu en de Jong, sem er 27 ára gamall, gekk til liðs við Barcelona frá Ajax sumarið 2019 fyrir 75 milljónir evra.
De Jong er einn launahæsti leikmaður spænsku 1. deildarinnar en hann kostar Börsunga um 35 milljónir evra á ári.
Forráðamenn félagsins hafa lagt mikið kapp á að endursemja við miðjumanninn og þannig lækka hann umtalsvert í launum en hann hefur ekki viljað skrifa undir þann samning.
Félagið hefur því brugðið á það ráð að setja hann á sölulista og vill spænska félagið fá í kringum 20 milljónir evra fyrir hann.
Hann var sterklega orðaður við Manchester United á meðan Erik ten Hag var stjóri liðsins og þá hefur hann einnig verið orðaður við Liverpool en hann hefur verið mikið meiddur undanfarin ár.