Spánverjinn Rafa Benítez er áhugasamur um norska karlalandsliðið í fótbolta en Benítez hefur verið án starfs síðan hann var rekinn frá Celta Vigo í heimalandinu í mars.
Benítez er í Noregi og hann ræddi við hlaðvarpsþáttinn Bakrommet þar í landi um norska liðið. „Ég er opinn fyrir því að taka við góðu liði og norska liðið er gott,“ sagði Benítez og hélt áfram:
„Það yrði góð áskorun fyrir mig að taka við landsliði,“ sagði hann en norska liðið hefur ekki komist á stórmót frá því á EM 2000.
Ståle Solbakken hefur stýrt norska liðinu frá árinu 2020 og hefur gefið í skyn að hann hætti með liðið eftir undankeppni eða lokamót HM 2026.
Benítez er þekktastur fyrir tíma sinn hjá Liverpool þar sem hann vann Meistaradeildina árið 2005. Hann hefur einnig stýrt liðum á borð við Valencia, Inter Mílanó, Chelsea, Napólí og Newcastle.