Stuðningsmenn Nordsjælland og AGF tóku upp á því að fara í snjókast á meðan liðin mættust í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í byrjun mánaðar.
Danska knattspyrnusambandið var ekki hrifið á uppátækinu og sektaði bæði félög um 5.000 danskar krónur, eða um tæpar 100 þúsund íslenskar krónur.
Lasse Vøge íþróttastjóri AGF er vægast sagt ósáttur við ákvörðun danska sambandsins.
„Þetta er fáránlegt og hlægilegt. Auðvitað eiga stuðningsmenn ekki að kasta hlutum sín á milli en þetta er allt annað. Það var enginn að reyna að meiða neinn og þetta hafði engin áhrif á leikinn. Það er ekki eins og þetta hafi verið flugeldar,“ sagði hann pirraður við BT.
Íslenski landsliðsmaðurinn Mikael Anderson og samherjar hans í AGF máttu sætta sig við ósigur í leiknum, 1:0.