Sveindís Jane Jónsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, skoraði fjögur mörk fyrir þýska liðið Wolfsburg eftir að hún kom inn á sem varamaður í 6:1-sigri á Roma frá Ítalíu í Meistaradeild Evrópu í kvöld.
Með sigrinum tryggði Wolfsburg sér annað sætið í A-riðli og fer þar með í átta liða úrslit ásamt Lyon.
Sveindís kom inn á í stöðunni 2:1 á 66. mínútu og var búin að skora þriðja mark Wolfsburg aðeins tveimur mínútum síðar.
Hún lét aldeilis ekki þar við sitja þar sem hún skoraði aftur fimm mínútum fyrir leikslok, fullkomnaði þrennuna tveimur mínútum fyrir leikslok og skoraði svo fjórða mark sitt og sjötta mark Wolfsburg á annarri mínútu uppbótartíma.