Danska knattspyrnufélagið Lyngby vill ólmt halda sóknarmanninum Sævari Atla Magnússyni í herbúðum sínum en samningur hans rennur út næsta sumar.
Danski miðillinn Bold.dk greinir frá því að félagið og Sævar Atli eigi nú í viðræðum um nýjan samning og að prýðis lýkur séu á því að Breiðhyltingurinn framlengi.
Kemur fram að báðir aðilar vilji framlengja en að nokkuð beri enn í milli í samningaviðræðunum.
Sævar Atli hefur leikið með Lyngby frá sumrinu 2021 þegar hann var keyptur frá uppeldisfélagi sínu Leikni úr Reykjavík.
Alls hefur hann skorað 18 mörk og lagt upp önnur 13 í 111 leikjum fyrir Lyngby í öllum keppnum.