Landsliðsmaður höfuðkúpubrotnaði

Guido Burgstaller í leik með Schalke á sínum tíma.
Guido Burgstaller í leik með Schalke á sínum tíma. Ljósmynd/Sandro Halank

Guido Burgstaller, austurrískur landsliðsmaður í knattspyrnu, er höfuðkúpubrotinn eftir að hafa orðið fyrir árás í Vínarborg um liðna helgi.

Í tilkynningu frá félagsliði hans Rapid Vín segir að óþekktur maður hafi ráðist á Burgstaller og höfuðkúpubrotið hann. Maðurinn veitti Burgstaller þungt högg, við það féll hann og skall með höfuðið í jörðina.

Samkvæmt Rapid Vín má Burgstaller eiga von á því að vera frá keppni um margra mánaða skeið vegna alvarlegra höfuðmeiðsla. Vonast félagið til þess að lögregluyfirvöld í Vínarborg hafi hendur í hári árásarmannsins og að hann verði fljótlega leiddur fyrir rétt.

Burgstaller er 35 ára sóknarmaður sem hefur meðal annars leikið með Schalke í Þýskalandi og Cardiff City í ensku B-deildinni þegar Ole Gunnar Solskjær þjálfaði liðið og Aron Einar Gunnarsson var leikmaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert