Ungstirnið frá í nokkrar vikur

Lamine Yamal í leiknum við Leganés í gær.
Lamine Yamal í leiknum við Leganés í gær. AFP/Josep Lago

Knattspyrnufélagið Barcelona tilkynnti í dag að meiðslin sem Lamine Yamal varð fyrir í leiknum við Leganés í gær væru ekki alvarleg.

Yamal, efnilegasti knattspyrnumaður heims um þessar mundir, meiddist á ökkla og fór af velli á 75. mínútu leiksins en í tilkynningu Barcelona segir að um „fyrstu gráðu meiðsli“ sé að ræða og reiknað sé með þriggja til fjögurra vikna fjarveru.

Yamal er aðeins 17 ára gamall en hefur skorað 10 mörk í fyrstu 53 leikjum sínum með Barcelona í spænsku 1. deildinni og var í Evrópumeistaraliði Spánverja í sumar þar sem hann var valinn besti ungi leikmaðurinn á mótinu, ásamt því að hann skoraði mark mótsins.

Barcelona tapaði leiknum óvænt, 1:0 á heimavelli og getur nú misst bæði Atlético Madrid og Real Madrid upp fyrir sig á toppi deildarinnar. Barcelona er með 38 stig, Atlético 38 og Real Madrid 37 en Barcelona hefur leikið einum leik meira en keppinautarnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert