„Nú verðið þið að hætta“

Guido Burgstaller í leik með Schalke á sínum tíma.
Guido Burgstaller í leik með Schalke á sínum tíma. Ljósmynd/Sandro Halank

Robert Klauss, knattspyrnustjóri Rapid Vín, segir Guido Burgstaller vera á batavegi eftir að hann varð fyrir fólskulegri árás um síðustu helgi sem endaði með því að Burgstaller höfuðkúpubrotnaði.

„Burgi hefur það betra og allt gengur eins og það á að gera. Hann verður áfram á sjúkrahúsi í nokkra daga og svo vinnum við út frá því. Við vonum að hann geti byrjað að hlaupa aftur eins fljótt og auðið er.

Eins og staðan er núna er hann frá í að minnsta kosti þrjá mánuði, þar sem hann má ekki spila fótbolta. Fyrsti sólarhringurinn skipti öllu máli upp á framhaldið að gera en nú geta læknarnir séð að hann er á batavegi,“ sagði Klauss á fréttamannafundi í Vín í dag.

Sumir hlutir eru einkamál

Rapid Vín mætir FC Köbenhavn í lokaumferð deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu annað kvöld. Bæði lið eiga möguleika á því að komast í eitt af átta efstu sætunum og því um mikilvægan leik að ræða.

Þrátt fyrir mikilvægi leiksins áttaði knattspyrnustjórinn sig fljótt á því að fundurinn myndi fyrst og fremst snúast um leikmanninn. Spurður hvort Burgstaller gæti horft á leikinn í sjónvarpi eða hlustað á hann í útvarpi var Klauss nóg boðið.

„Nú verðið þið að hætta. Sumir hlutir eru einkamál og nú erum við að nálgast þau mörk,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert