Bróðir Pogba hlaut fangelsisdóm

Bræðurnir Florentin, Paul og Mathias Pogba á góðri stundu.
Bræðurnir Florentin, Paul og Mathias Pogba á góðri stundu. AFP/Daniel Leal

Mathias Pogba, eldri bróðir franska knattspyrnumannsins Paul Pogba, hefur verið dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir að kúga fé út úr Paul í slagtogi við fimm karlmenn til viðbótar.

Í þriggja ára fangelsisdómi Mathias, sem er sjálfur fyrrverandi knattspyrnumaður, eru tvö ár skilorðsbundin. Hann var auk þess sektaður um 20.000 evrur, tæpar þrjár milljónir íslenskra króna.

Árið 2022 tilkynnti Paul saksóknaraembættinu í París að æskuvinir hans hafi kúgað út úr honum fé í mars árið 2022. Greiddi Paul þeim 100.000 evrur, 14,5 milljónir króna.

Hinir karlmennirnir fimm fengu á bilinu fjögurra til átta ára fangelsisdóma.

Fréttaveitan Reuters greinir frá því að Roushdane K. hafi fengið átta ára dóm, Adama C. hafi fengið fimm ára dóm, Mamadou M. hafi fengið fimm ára dóm þar af eitt ár skilorðsbundið, Boubacar C. hafi fengið fjögurra ára dóm þar af tvö ár skilorðsbundin og Machikour K. hafi fengið fjögurra ára dóm þar af þrjú ár skilorðsbundin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert