Karlalið Liverpool í knattspyrnu náði góðum áfanga í gærkvöldi þegar liðið lagði Southampton að velli, 2:1, í átta liða úrslitum enska deildabikarsins.
Liverpool hefur nú spilað 20 leiki í röð í öllum keppnum án þess að tapa. Er það í fyrsta sinn síðan í mars árið 1996 sem Liverpool tekst það innan sama tímabils.
Arne Slot hefur farið vel af stað sem knattspyrnustjóri Liverpool eftir að hafa tekið við af Jürgen Klopp. Er liðið á toppnum í ensku úrvalsdeildinni og deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu.
Undir stjórn Klopps var Liverpool sömuleiðis taplaust í 20 leikjum en ekki innan sama tímabils. Liverpool lauk tímabilinu 2020-21 og byrjaði tímabilið 2021-22 á því að tapa ekki í 20 leikjum.