Austurríska liðið LASK Linz verður án síns þekktasta leikmanns þegar það tekur á móti Víkingi í lokaumferð Sambandsdeildarinnar í fótbolta í Linz í kvöld.
Jérome Boateng, fyrrverandi landsliðsmaður Þýskalands og leikmaður Bayern München í heilan áratug, gekk til liðs við LASK í sumar. Hann er orðinn 36 ára gamall og hefur aðeins spilað fjóra af 16 leikjum liðsins í austurrísku deildinni en hefur komið við sögu í fjórum Evrópuleikjum LASK.
Boateng er ekki í hópnum í kvöld, samkvæmt heimasíðu LASK. Einn fastamaður liðsins er einnig fjarri góðu gamni, þýski varnarmaðurinn Philipp Ziereis sem hefur leikið alla leiki LASK í austurrísku deildinni á þessu tímabili og spilað sex Evrópuleiki.