Jamie Carragher, fyrrverandi knattspyrnumaður og núverandi sparkspekingur hjá Sky Sports, sparaði ekki stóru orðin um Fraser Forster og Altay Bayindir, markverði Tottenham Hotspur og Manchester United, eftir leik liðanna í gærkvöldi.
Liðin mættust í Lundúnum í átta liða úrslitum enska deildabikarsins og vann Tottenham leikinn 4:3.
„Höfum við nokkurn tímann séð verri frammistöðu hjá tveimur markvörðum í sama leik?“ spurði Carragher á Sky Sports eftir leikinn.
Forster og Bayindir báru ábyrgð á tveimur mörkum hvor sem lið þeirra fengu á sig. Undarleg markvarsla Forster þegar hann fékk skot beint á sig og sparkaði boltanum burt í stað þess að grípa hann vakti einnig athygli.