Fótbolta svikahrappur í níu ára fangelsi

Bernio Verhagen með treyju Viborg eftir að hann samdi við …
Bernio Verhagen með treyju Viborg eftir að hann samdi við félagið. Ljósmynd/Viborg

Bernio Verhagen, sem samdi á sínum tíma við nokkur atvinnufélög í knattspyrnu á fölskum forsendum, hefur verið dæmdur í níu ára fangelsi í Breda í Hollandi.

Verhagen var fundinn sekur um tvö rán á heimilum í hollensku borginni auk tilraunar til annars ráns. Hann hefur oft áður komist í kast við lögin og skilið eftir sig sviðna jörð.

Verhagen, sem er þrítugur og kemur frá Súrínam, var á sínum tíma á mála hjá Viborg í Danmörku, Audax Italiano í Síle, Cape Town City í Suður-Afríku og Dinamo-Auto Tiraspol í Moldóvu.

Samdi hann við öll fjögur félögin árið 2019 eftir að hafa verið á mála hjá neðrideildarliðum í Hollandi þar á undan.

Spilaði aldrei leik

Verhagen spilaði aldrei einn einasta leik fyrir neitt af atvinnufélögunum fjórum enda varð hann sér úti um samninga hjá þeim með því að leggja fram fölsuð skjöl sem létu líta út fyrir glæsilegri knattspyrnuferil en raunin var.

Í Danmörku sat Verhagen inni í 15 mánuði eftir að hann var dæmdur fyrir heimilisofbeldi í garð þáverandi kærustu sinnar. Einnig hefur Verhagen setið inni í Kólumbíu fyrir fjársvik.

Fyrir rétti í Breda fór saksóknari fram á 11 ára fangelsisdóm en dómari ákvað að gefa honum níu ára dóm og tók þar tillit til hræðilegra aðstæðna í kólumbíska fangelsinu sem Verhagen þurfti að dúsa í.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert