Handtekinn fyrir heimilisofbeldi

Rúben Semedo í leik með Villarreal á Spáni á sínum …
Rúben Semedo í leik með Villarreal á Spáni á sínum tíma. AFP

Portúgalski knattspyrnumaðurinn Rúben Semedo hefur verið handtekinn, grunaður um að beita kærustu sína heimilisofbeldi og frelsissvipta hana.

Samkvæmt portúgalska miðlinum Correio da Manha var Semedo handtekinn aðfaranótt sunnudags í Vila Franca de Xira í Lissabon.

Hann er sagður hafa ráðist á kærustu sína og hélt henni nauðugri áður en henni tókst að flýja og leita til lögreglu.

Í frétt Correio da Manha kemur fram að kærasta Semedo hafi verið logandi hrædd og komið á lögreglustöðina með augljósa marbletti. Var hún svo flutt á sjúkrahús.

Semedo, sem er þrítugur leikmaður Al Khor í Katar, gistir nú í fangageymslu í Lissabon og mætir fyrir rétt í dag.

Hefur áður komist í kast við lögin

Hann hefur áður komist í kast við lögin. Í janúar árið 2018 var Semedo handtekinn fyrir líkamsárás og vopnaburð eftir að hann dró upp byssu á bar í Valencia á Spáni í lok árs 2017.

Síðar árið 2018 var Semedo aftur handtekinn fyrir að hafa í slagtogi við tvo aðra bundið og pyndað karlmann á heimili mannsins áður en þremenningarnir sneru aftur til heimilisins til þess að ræna það.

Fyrir síðara brotið var hann ákærður fyrir morðtilraun og sat inni í nokkra mánuði. Tveimur árum síðar játaði Semedo að hafa átt þátt í mannráni, ráni, líkamsmeiðingum og ólöglegum vopnaburði.

Í ágúst 2021 var hann handtekinn í Aþenu eftir að 17 ára stúlka sakaði Semedo ásamt öðrum um að hafa hópnauðgað sér. Honum var sleppt lausum nokkrum dögum síðar eftir að hafa greitt tryggingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka