Fjórir leikmenn kvennaliðs argentínska knattspyrnufélagsins River Plate dvöldu um nokkurra daga skeið í fangelsi í Sao Paulo í Brasilíu eftir að hafa verið sakaðar um kynþáttafordóma í garð boltastráks í leik gegn Gremio um þarsíðustu helgi.
Reuters fréttaveitan skýrir frá því að Candela Díaz, Camila Duarte, Juana Cángaro og Milagros Díaz hafi verið handteknar fyrir kynþáttafordóma eftir leik River Plate gegn Gremio í móti í Sao Paulo þann 21. desember.
Var þeim svo sleppt úr haldi tæpri viku síðar, þann 27. desember, gegn því loforði að þær mæti fyrir rétt í Sao Paulo í hverjum mánuði þar til málið verður til lykta leitt.
Díaz er sögð hafa gefið boltastráknum apamerki og þjálfari Gremio sagði leikmenn River Plate auk þess hafa kallað leikmenn sína apa á meðan leiknum stóð.
Í yfirlýsingu frá River Plate eru kynþáttafordómar leikmannanna fordæmdir og því heitið að tekið verði á málinu innanhúss.