Allt stefnir í að Barcelona fái ekki að skrá spænska miðjumanninn Dani Olmo í leikmannahóp liðsins eftir að áfrýjun félagsins var hafnað af dómstólum á Spáni.
Olmo, sem er 26 ára, kom til Barcelona í sumar frá RB Leipzig eftir að hafa orðið Evrópumeistari með Spánverjum.
Barcelona fékk að skrá Olmo í leikmannahópinn á undanþágu þegar hann kom í ágúst en sú undanþága gildir bara fram að áramótum. Félagið sótti um framlenginu fram á næsta sumari en spænska deildin hafnaði þeirri beiðni.
Til að fá leikheimild þarf Barcelona að sýna fram á auknar tekjur til að réttlæta launakostnað Olmo.
Olmo getur sagt upp samningi sínum hjá Barcelona og byrjað að ræða við önnur félög á morgun, takist liðinu ekki að skrá hann í leikmannahópinn. Spánverjinn hefur meðal annars verið orðaður við Englandsmeistara Manchester City.