Willum Þór Willumsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, lagði upp í 1:1-jafntefli Birmingham City gegn Stockport County í C-deildinni á Englandi í dag.
Willum var í byrjunarliði Birmingham eins og vanalega og lagði upp mark fyrir Alfie May þegar aðeins fimm mínútur voru búnar af leiknum. Hann fór af velli á 65. mínútu og Stockport jafnaði metin á 78. mínútu.
Birmingham er í öðru sæti deildarinnar með 50 stig, jafnmörg og topplið Wycombe Wanderers, og á leik til góða.
Alfons Sampsted er meiddur og því ekki í hópnum hjá Birmingham í dag og Benoný Breki Andrésson var ekki í hópnum hjá Stockport en hann er formlega orðinn leikmaður félagsins frá og með deginum í dag, eftir að hann var keyptur þangað frá KR.