Jude Bellingham reyndist hetja Real Madríd þegar hann skoraði hádramatískt sigurmark í 2:1-sigri á Valencia í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu í kvöld. Madrídingar skoruðu bæði mörk sín einum færri eftir að hafa lent undir.
Með sigrinum fór Real Madríd upp fyrir nágranna sína í Atlético Madríd og í toppsæti deildarinnar, þar sem liðið er með 43 stig.
Valencia er áfram í 19. og næstneðsta sæti með aðeins 12 stig, fjórum stigum frá öruggu sæti.
Hugo Duro kom heimamönnum í Valencia yfir á 27. mínútu. Gestirnir frá Madríd fengu kjörið tækifæri til þess að jafna metin á 55. mínútu en þá skaut Jude Bellingham í stöng úr vítaspyrnu.
Fimm mínútum síðar virtist Bellingham vera að leggja upp jöfnunarmark fyrir Kylian Mbappé en það var dæmt af vegna rangstöðu eftir athugun í VAR.
Svo virtist sem ekkert ætlaði að ganga upp hjá leikmönnum Real Madríd kvöld þar sem vont versnaði þegar Vinícius Júnior fékk beint rautt spjald ellefu mínútum fyrir leikslok.
Við það var reynsluboltanum Luka Modric skipt inn á. Fimm mínútum síðar og fimm mínútum fyrir leikslok var Modric búinn að jafna metin fyrir tíu Madrídinga eftir sendingu frá Bellingham.
Enski miðjumaðurinn bætti um betur þar sem hann skoraði sigurmark Real Madríd á sjöttu mínútu uppbótartíma og ótrúlegur sigur Spánarmeistaranna niðurstaðan.