Stuðningsmaður Rangers hæfði belgíska knattspyrnumanninn Arne Engels, miðjumann Celtic, í höfuðið með peningamynt í Glasgow-slagnum í skosku úrvalsdeildinni í gær.
Rangers vann leikinn 3:0 á heimavelli sínum Ibrox en eftir leikinn hafa bæði félög tekið höndum saman í að fordæma hegðunina. Skoska deildakeppnin, SPFL, tekur í sama streng og segir í harðorðri yfirlýsingu:
„Svona hegðun er með öllu óásættanleg og við styðjum fyllilega við öll þau skref sem verða tekin til þess að bera kennsl á þann sem ber ábyrgð á svona heimskulegri, glæpsamlegri hegðun.
Hættan sem skapast þegar svokallaðir stuðningsmenn fleygja svona aðskotahlutum á völlinn er augljós og hverjum þeim sem fundinn verður sekur um svo hneykslanlegt framferði verður að refsa harðlega fyrir rétti, þar á meðal banni frá knattspyrnuvöllum.“