Knattspyrnuþjálfarinn Heimir Hallgrímsson hefur átt afar viðburðaríkt ár en hann var ráðinn þjálfari karlaliðs Írlands í júlí, aðeins nokkrum dögum eftir að hann lét af störfum sem þjálfari karlaliðs Jamaíku.
Heimir, sem er 57 ára gamall, tók við þjálfun Jamaíku í september árið 2022 og náði mjög góðum árangri með liðið en Jamaíka komst í undanúrslit Gullbikarsins þar sem liðið tapaði fyrir Mexíkó í undanúrslitum keppninnar í Nevada í Bandaríkjunum í sumar.
Þá fór liðið alla leið í undanúrslit Þjóðadeildar Norður-Ameríku í ár þar sem Jamaíka tapaði fyrir Bandaríkjunum í Arlington, 3:1, eftir framlengdan leik, en Jamaíka hafnaði í þriðja sæti keppninnar eftir sigur gegn Panama í leik um bronsverðlaunin, 1:0. Með árangrinum í Þjóðadeildinni tryggði liðið sér einnig keppnisrétt í Suður-Ameríkubikarnum þar sem Jamaíka féll úr leik eftir riðlakeppnina og hætti Heimir með liðið stuttu síðar.
„Mér líður vel í þessu starfi hjá Írlandi,“ sagði Heimir í samtali við Morgunblaðið.
Eins og Heimir kom sjálfur inn á þá hefur verið mikil fjölmiðlaumfjöllun um íslenska þjálfarann á Írlandi síðan hann tók við liðinu og hafa fjölmiðlar meðal annars gengið svo langt að tala um að starf hans hafi verið í hættu strax eftir leikina gegn Englandi og Grikklandi í september.
„Ég hef vanið mig á það að lesa ekki blöðin og ég er ekki á samfélagsmiðlum heldur. Þessi umfjöllun hefur því ekki áhrif á mig þannig lagað. Ég er kominn með það góða reynslu á þessu sviði, það skiptir ekki máli hvort það gengur vel eða illa þegar kemur að umræðu í kringum liðið. Það sem er sagt á samfélagsmiðlum kemur í flestum tilfellum frá fólki sem þekkir ekki endilega dýptina á því sem er í gangi hverju sinni. Það sama á við hvort við vinnum leiki eða töpum, ég les ekki umfjallanir. Á sama tíma er mikilvægt að bera virðingu fyrir fjölmiðlamönnum því margir þeirra hafa starfað mjög lengi í boltanum. Það samstarf finnst mér alltaf að batna. Það er þannig að þegar þú tekur við landsliði, þá máttu búast við því að margir muni tjá sína skoðun. Það er eðlilegt því landslið er lið allra landsmanna og það mega og eiga allir að hafa skoðun á því.
Það verða aldrei allir á sömu skoðun, það mun aldrei gerast. Einnig munu þeir sem eru neikvæðastir hrópa hæst og það ratar oftast í fjölmiðla. Mér finnst umfjöllunin ekki hafa verið ósanngjörn síðan ég tók við hjá Írlandi, en ég geri mér líka grein fyrir því að það verður alltaf einhver ósáttur með eitthvað. Það fylgir því bara að vera landsliðsþjálfari. Fólk er óhrætt að segja sína skoðun og það er svo þitt val hvernig þú tekur þeirri gagnrýnini. Ég hef reynt að vera staðfastur í því sem ég tel að þurfi að gera og geri mitt besta og er vinnusamur, ef það er ekki nóg þá nær það ekki lengra.“