Hlín Eiríksdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, hefur skrifað undir nýjan eins árs samning við Íslendingalið Kristianstad.
Hlín var afar eftirsótt eftir að samningur hennar við félagið rann út í lok síðasta árs. Félög í Svíþjóð og í öðrum löndum sýndu sóknarmanninum mikinn áhuga en nú hefur Hlín ákveðið að taka að minnsta kosti eitt tímabil til viðbótar með Kristianstad.
„Það var aldrei nokkur vafi í mínum huga að ef ég yrði áfram í Svíþjóð yrði það hjá Kristianstad.
Mig dreymir enn um að spila annars staðar erlendis en akkúrat núna einbeiti ég mér að Kristianstad,“ sagði Hlín í samtali á heimasíðu Kristianstad.
Hún var þriðja markahæst í sænsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. Þá skoraði Hlín 15 mörk í 25 leikjum og lagði auk þess upp fjögur mörk.