Mögnuð endurkoma AC Milan í grannaslagnum

Gleði hjá leikmönnum AC Milan eftir dramatískan sigur á Inter …
Gleði hjá leikmönnum AC Milan eftir dramatískan sigur á Inter í kvöld. AFP/Fayez Nureldine

AC Milan lagði granna sína í Inter Mílanó að velli, 3:2, í dramatískum úrslitaleik meistarabikars karla í ítalska fótboltanum sem fram fór í Riyadh í Sádi-Arabíu í kvöld.

Inter virtist vera langt komið með að gera út um leikinn þegar liðið skoraði í uppbótartíma fyrri hálfleiks og aftur í byrjun síðari hálfleiks.

Lautaro Martínez skoraði fyrra markið etir sendingu frá Mehdi Taremi, sem síðan skoraði eftir sendingu frá Stefan de Vrij, 2:0 fyrir Inter.

En AC Milan náði að svara fyrir sig strax á 52. mínútu þegar Theo Hernandez minnkaði muninn í 2:1 og hann lagði síðan upp jöfnunarmark fyrir Christian Pulisic á 80. mínútu, 2:2.

Það var síðan enski framherjinn Tammy Abraham sem skoraði sigurmarkið á fjórðu mínútu í uppbótartíma eftir sendingu frá Rafael Leao í gegnum vörn Inter, 3:2.

Fyrr í dag vann Roma sigur á Fiorentina, 3:1, í úrslitaleiknum í meistarabikar kvenna en Alexandra Jóhannsdóttir var ekki í leikmannahópi Fiorentina. Sá leikur fór fram í La Spezia á Ítalíu.

Leikmenn AC Milan fagna sigurmarkinu frá Tammy Abraham í kvöld.
Leikmenn AC Milan fagna sigurmarkinu frá Tammy Abraham í kvöld. AFP/Fadel Senna
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert