Albert Guðmundsson, knattspyrnumaður hjá Fiorentina, æfði ekki með liðsfélögum sínum í Flórens í dag.
Albert er að glíma við ökklameiðsli og var allan tímann á bekknum hjá Fiorentina er liðið fékk skell gegn Napólí, 3:0, á laugardaginn var.
La Gazzetta dello Sport greinir frá meiðslunum. Albert átti að koma inn á sem varamaður á 60. mínútu gegn Napólí en hætt var við skiptinguna þegar íslenski sóknarmaðurinn fann fyrir óþægindum.
Meiðslin eru væntanlega ekki alvarleg og vonast Fiorentina til að geta teflt Alberti fram er liðið mætir Monza á mánudagskvöld.