Braut sjónvarpið í búningsklefanum

Sergio Conceicao lætur í sér heyra á hliðarlínunni í úrslitaleiknum …
Sergio Conceicao lætur í sér heyra á hliðarlínunni í úrslitaleiknum gegn Inter í gærkvöld. AFP/Fayez Nureldine

Sergio Conceicao, nýr knattspyrnustjóri AC Milan, braut sjónvarpstæki í búningsklefa liðsins þegar það lék um ítalska meistarabikarinn í Sádi-Arabíu.

Tímasetning atviksins er ekki alveg á hreinu því Zlatan Ibrahimovic, fyrrverandi leikmaður AC Milan, sagði að það hefði gerst í leikhléi úrslitaleiksins gegn Inter Mílanó í gærkvöld en ítalska blaðið Gazzetta dello Sport segir að atvikið hafi átt sér stað í leikhléinu í viðureign liðsins gegn Juventus í undanúrslitunum.

AC Milan vann báða leikina, fyrst 2:1 gegn Juventus og vann svo frækinn sigur í úrslitaleiknum gegn Inter, 3:2, eftir að hafa lent tveimur mörkum undir.

Samkvæmt Gazzetta var Conceicao svo fokillur yfir frammistöðu liðsins í fyrri hálfleik gegn Juventus að hann barði sjónvarpstækið sem brotnaði og hrundi niður á gólf búningsklefans.

Portúgalinn Conceicao tók við liðinu fyrir þessa leiki í Sádi-Arabíu en Paulo Fonseca var rekinn 30. desember.

Rafael Leao og Christian Pulisic, leikmenn AC Milan, sögðu í viðtölum eftir leikinn í gærkvöld að nýi stjórinn hefði komið með annað orkustig og áru inn í liðið fyrir leikina tvo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert