Knattspyrnumaðurinn Júlíus Magnússon, fyrirliði bikarmeistara Fredrikstad í Noregi, er á leið til Elfsborg í Svíþjóð.
Norski miðillinn Nettavisen skýrir frá því að viðræður séu á lokastigi og að kaupverðið sé um tíu milljónir norskra króna, 124 milljónir íslenskra króna, auk bónusgreiðslna.
Gangi allt eftir ferðast miðjumaðurinn sterki til Svíþjóðar á næstu dögum og fer því ekki með Fredrikstad í æfingaferð til Spánar á morgun.
Júlíus lék hverja einustu mínútu í 30 deildarleikjum í norsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili þegar liðið hafnaði í sjötta sæti og kom á óvart sem nýliði í deildinni.
Þá skoraði hann úr sigurvítaspyrnunni í vítakeppni í úrslitaleik bikarkeppninnar gegn Molde.
Hjá Elfsborg mun Júlíus hitta fyrir sóknartengiliðinn Eggert Aron Guðmundsson.