Norsku stórliðin í slag um Frey?

Freyr Alexandersson hefur þjálfað Kortrijk og Lyngby síðustu árin.
Freyr Alexandersson hefur þjálfað Kortrijk og Lyngby síðustu árin. Ljósmynd/Kortrijk

Tvö af bestu knattspyrnuliðum Noregs í karlaflokki hafa mikinn hug á að fá Frey Alexandersson til sín sem þjálfara.

Þegar hefur komið fram að Freyr sé á óskalistanum hjá Brann og Tipsbladet í Danmörku segir að Molde hafi líka rætt við Íslendinginn sem var sagt upp störfum hjá Kortrijk í Belgíu í síðasta mánuði.

Blaðið segir að mikill áhugi sé á Frey, sem muni jafnframt ræða við Knattspyrnusamband Íslands um starf landsliðsþjálfara karla, en ljóst sé að hvorki Brann né Molde hafi tíma til að bíða lengi eftir honum.

Brann sé sérstaklega komið langt í sínu ferli og muni væntanlega tilkynna um nýjan þjálfara á næstu dögum.

Tveir Danir eru líka orðaðir við norsku liðin, Mike Tullberg við Brann og Thomas Nörgaard við Molde.

Þá segir Tipsbladet að Molde hafi gert Per-Mathias Högmo tilboð en hann hefur einmitt líka verið orðaður við íslenska karlalandsliðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert