Arsenal mátti sætta sig við 2:0-tap fyrir Newcastle United í fyrri leik liðanna í undanúrslitum enska deildabikarsins í knattspyrnu karla á Emirates-leikvanginum í Lundúnum í gærkvöldi.
Langt var um liðið síðan Arsenal tapaði síðast leik á heimavelli í öllum keppnum. Það hafði síðast gerst tæpum níu mánuðum fyrr, um miðjan apríl á síðasta ári.
Þá töpuðu Skytturnar einnig 2:0 en þá fyrir Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni, sem reyndist dýrkeypt í baráttunni við Manchester City um Englandsmeistaratitilinn.
Newcastle og Arsenal mætast í síðari leik liðanna í undanúrslitum deildabikarsins eftir tæpan mánuð, 5. febrúar.