Markaskorarinn orðinn landsliðsþjálfari

Patrick Kluivert reynir að koma Indónesíu á HM í fyrsta …
Patrick Kluivert reynir að koma Indónesíu á HM í fyrsta skipti í 88 ár. AFP/Fabrice Coffrini

Hollendingurinn Patrick Kluivert hefur verið ráðinn þjálfari karlalandsliðs Indónesíu í knattspyrnu.

Kluivert, sem er 48 ára gamall, gerði garðinn frægan með Barcelona á sínum tíma og skoraði 90 mörk fyrir félagið í spænsku 1. deildinni og varð áður Evrópumeistari með Ajax í Hollandi.

Þetta er hans annað starf sem landsliðsþjálfari en hann stýrði liði Curacao í Karabíska hafinu á árunum 2015-2016. Hann var áður aðstoðarþjálfari hollenska karlalandsliðsins í tvö ár og var síðan aðstoðarþjálfari Kamerún á árunum 2018-2019.

Lið Indónesíu er í 127. sæti á heimslista FIFA og vann í nóvember óvæntan sigur á Sádi-Arabíu, 2:0, í undankeppni HM 2026, ásamt því að liðin skildu jöfn í fyrri leik liðanna í Sádi-Arabíu.

Kluivert byrjar á erfiðu verkefni sem er útileikur gegn Ástralíu í undankeppni HM 20. mars en aðeins eitt stig skilur liðin að í öðru og þriðja sæti undanriðilsins þegar sex umferðum er lokið af tíu. Tvö efstu liðin komast á HM og tvö næstu lið í umspil.

Indónesía hefur einu sinni leikið á HM en það var árið 1938.

Kluivert hefur annars nóg að gera við að fylgjast með fjórum sonum sínum sem allir eru atvinnumenn í fótbolta. Justin Kluivert hefur náð lengst, er framherji hjá Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni, en hinn 17 ára gamli Shane Kluivert leikur með unglingaliði Barcelona. Hinir tveir, Quincy og Ruben, leika í neðri deildum Hollands.

Þá var Kenneth Kluivert, faðir Patricks, landsliðsmaður Súrinam í Suður-Ameríku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert