Ange Postecoglou, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, segir stöðuna erfiða hjá liðinu um þessar mundir og að þó hann hefði egypska sóknarmanninn Mohamed Salah, leikmann Liverpool, í sínum röðum myndi það litlu breyta.
Tottenham og Liverpool mætast í fyrri leik undanúrslita enska deildabikarsins í Lundúnum í kvöld.
Hjá Tottenham eru tíu leikmenn fjarverandi, þar af aðalmarkvörðurinn og þrír af fjórum byrjunarliðsmönnum úr varnarlínunni, og er liðið án sigurs í síðustu fjórum leikjum sínum.
„Mo er heimsklassa leikmaður en ef þú myndir setja hann í liðið okkar á þessum tímapunkti er ég ekki viss um að hann myndi standa sig eins vel og hann hefur verið að gera vegna þeirrar aðstöðu sem við sem hópur erum í,“ sagði Postecoglou á fréttamannafundi í gær.
Salah er marka- og stoðsendingahæstur í ensku úrvalsdeildinni um þessar mundir en ástralski stjórinn telur að hann myndi eiga erfitt uppdráttar hjá Tottenham.
„Hverjum þarf hann á að halda þegar hann sækir? Þú þarft á liði að halda sem er í góðu standi, býr sér til færi og spilar með jákvæðum hætti á traustum grunni varnar sem er samheldin. Ekkert af þessu er til staðar hjá okkur sem stendur.“