Zidane tilbúinn í slaginn?

Zinedine Zidane var sigursæll sem knattspyrnustjóri Real Madrid.
Zinedine Zidane var sigursæll sem knattspyrnustjóri Real Madrid. AFP/Franck Fife

Zinedine Zidane er líklegastur til að taka við þjálfarastarfinu hjá franska karlalandsliðinu í fótbolta á næsta ári.

Didier Deschamps hefur staðfest að hann muni láta af störfum eftir heimsmeistaramótið 2026 en þá hefur hann stýrt liðinu í fjórtán ár.

Franska íþróttadagblaðið L'Equipe segir að Zidane sé líklegasti eftirmaður hans. 

Zidane, sem var í heimsmeistaraliði Frakka árið 1998 og Evrópumeistari með því árið 2000, var einn besti knattspyrnumaður heims á sínum tíma. Hann hefur verið í fríi frá þjálfun síðan hann hætti störfum hjá Real Madrid árið 2021.

Zidane er 52 ára gamall og lék 108 landsleiki fyrir Frakkland á sínum tíma en hann lagði skóna á hilluna árið 2006 eftir að hafa leikið með Real Madrid í fimm ár.

Hann stýrði síðan liðinu á árunum 2016 til 2018 og aftur árin 2019 til 2021. Real Madrid varð þrisvar Evrópumeistari og tvisvar spænskur meistari undir hans stjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert