Úrúgvæski knattspyrnumaðurinn Rodrigo Bentancur, miðjumaður Tottenham Hotspur, hneig niður snemma leiks gegn Liverpool í gærkvöldi, fékk súrefni á vellinum og var svo borinn af velli um átta mínútum síðar.
Í tilkynningu frá Tottenham á samfélagsmiðlum sem birtist áður en fyrri hálfleikur var úti sagði:
„Við getum staðfest að Rodrigo er með meðvitund, tjáir sig og fer á sjúkrahús til að gangast undir frekari skoðanir.“
Ekki hefur komið fram í enskum fjölmiðlum hvað nákvæmlega kom fyrir Bentancur en hann birti mynd af sér á Instagram eftir leikinn þar sem hann óskaði liðsfélögum sínum til hamingju með 1:0-sigur á Liverpool og þakkaði fyrir auðsýndan stuðning.