Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag er norska knattspyrnufélagið Brann búið að bjóða Frey Alexanderssyni starf þjálfara karlaliðsins.
Tipsbladet í Danmörku greinir frá að Brann hafi boðið Jonathan Hartmann starf aðstoðarþjálfara en Hartmann var aðstoðarmaður Freys hjá Lyngby í Danmörku og Kortrijk í Belgíu.
Voru þeir reknir frá belgíska félaginu fyrir áramót og því báðir án félags sem stendur.
Freyr gerði glæsilega hluti með Lyngby áður en hann tók við Kortrijk og hélt liðinu uppi þrátt fyrir að það hafi verið í vonlítilli stöðu þegar Freyr tók við.
Tipsbladet ritar því fyrirsögnina: Kraftaverkamanninum Frey boðið nýtt starf.