Borja Sainz, sóknarmaður Norwich City í ensku B-deildinni í knattspyrnu, hefur verið úrskurðaður í sex leikja bann eftir að hafa viðurkennt að hrækja á andstæðing í leik með liðinu.
Sainz hrækti á andstæðing í leik gegn Sunderland þann 21. desember síðastliðinn. Leiknum lauk með 2:1-sigri Sunderland en Sainz var ekki refsað á meðan leiknum stóð.
Auk þess að fá sex leikja bann hefur spænski sóknarmaðurinn verið sektaður um 12.000 pund, tvær milljónir íslenskra króna.