Barcelona valtaði yfir erkifjendur sína Real Madrid, 5:2, í úrslitaleik meistarakeppni Spánar í knattspyrnu í Sádi-Arabíu í kvöld.
Frakkinn Kylian Mbappé kom Madrídingum yfir strax á fimmtu mínútu. Ungstirnið Lamine Yamal jafnaði metin fyrir Börsunga á 22. mínútu.
Barcelona tók forystuna á 36. mínútu þegar Robert Lewandowski skoraði af vítapunktinum. Þremur mínútum síðar bætti Rapinha við þriðja marki Barcelona.
Í uppbótartíma fyrri hálfleiks skoraði Alejandro Balde fjórða mark Barcelona og var staðan því 4:1 í hálfleik.
Rapinha bætti við sínu öðru marki og fimmta marki Börsunga á 48. mínútu. Wojciech Szczesny, markvörður Barcelona, fékk rautt spjald skömmu síðar og var Real Madrid manni fleiri í rúmlega hálftíma.
Brasilíumaðurinn Rodrygo skoraði sárabótarmark fyrir Real Madrid á 60. mínútu. Fleiri urðu mörkin ekki og vann Barcelona 5:2-sigur.