Launin verða fjórum til fimm sinnum hærri

Khvicha Kvaratskhelia hefur líklega leikið sinn síðasta leik með Napoli.
Khvicha Kvaratskhelia hefur líklega leikið sinn síðasta leik með Napoli. AFP/Marco Bertorello

Allt bendir til þess að Georgíumaðurinn snjalli Khvicha Kvaratskhelia gangi til liðs við frönsku meistarana París SG á allra næstu dögum.

Félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano segir á samfélagsmiðlinum X að eftir viðræður PSG og Napoli í dag séu kaup Frakkanna á honum nánast í höfn.

Félögin séu ásátt um kaupverð og PSG sé þegar búið að semja við Kvaratskhelia um kaup og kjör, en hann fái um fjórum til fimm sinnum hærri laun í París en í Napólí.

Kvaratskhelia er 23 ára gamall kantmaður sem sló í gegn þegar Napoli varð meistari vorið 2023, í fyrsta sinn í 33 ár, en þá var hann kosinn besti leikmaður deildarinnar eftir að hafa skorað 12 mörk og átt tíu stoðsendingar fyrir meistarana. Þá var hann valinn besti ungi leikmaður Meistaradeildar Evrópu sama vor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert