Allt bendir til þess að Georgíumaðurinn snjalli Khvicha Kvaratskhelia gangi til liðs við frönsku meistarana París SG á allra næstu dögum.
Félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano segir á samfélagsmiðlinum X að eftir viðræður PSG og Napoli í dag séu kaup Frakkanna á honum nánast í höfn.
Félögin séu ásátt um kaupverð og PSG sé þegar búið að semja við Kvaratskhelia um kaup og kjör, en hann fái um fjórum til fimm sinnum hærri laun í París en í Napólí.
Kvaratskhelia er 23 ára gamall kantmaður sem sló í gegn þegar Napoli varð meistari vorið 2023, í fyrsta sinn í 33 ár, en þá var hann kosinn besti leikmaður deildarinnar eftir að hafa skorað 12 mörk og átt tíu stoðsendingar fyrir meistarana. Þá var hann valinn besti ungi leikmaður Meistaradeildar Evrópu sama vor.