Hákon skoraði í dramatískum bikarsigri

Hákon Arnar Haraldsson í baráttu við Pierre-Emile Höjbjerg í kvöld.
Hákon Arnar Haraldsson í baráttu við Pierre-Emile Höjbjerg í kvöld. AFP/Clément Mahoudeau

Hákon Arnar Haraldsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, skoraði mark Lille í venjulegum leiktíma þegar liðið hafði betur gegn Marseille í vítaspyrnukeppni þar í borg í 32-liða úrslitum frönsku bikarkeppninnar í kvöld.

Staðan að loknum venjulegum leiktíma var 1:1. Vann Lille svo 4:3 í vítaspyrnukeppni og er þar með búið að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum.

Hákon Arnar var í byrjunarliði Lille og var tekinn af velli á 90. mínútu. Kom mark Skagamannsins á 68. mínútu þegar hann skoraði af stuttu færi eftir undirbúning kanadíska framherjans Jonathans Davids.

Þegar Lille virtist vera að sigla naumum sigri í höfn jafnaði Luis Henrique fyrir Marseille á sjöttu mínútu uppbótartíma með laglegu skoti og knúði þannig fram vítaspyrnukeppni, en ekki var farið í framlengingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert