Klopp mun ekki þjálfa hjá Red Bull

Jürgen Klopp situr fyrir svörum á fréttamannafundi Red Bull í …
Jürgen Klopp situr fyrir svörum á fréttamannafundi Red Bull í dag. AFP/Kerstin Joensson

Jürgen Klopp, yfirmaður knattspyrnumála hjá Red Bull, segir það ekki koma til greina að taka við sem þjálfari hjá neinu af knattspyrnufélögunum sem eru í eigu austurríska orkudrykkjarisans.

Klopp lét af störfum sem knattspyrnustjóri Liverpool síðasta sumar og tók í upphafi þessa árs við nýju starfi hjá Red Bull, þar sem hann mun veita knattspyrnufélögum fyrirtækisins ráðgjöf.

„Nei, ég mun ekki taka við sem þjálfari hjá neinu af Red Bull liðunum. Það er alveg ljós skuldbinding af minni hálfur. Eins mikið og maður getur ábyrgst eitthvað verð ég ekki þjálfari yfir höfuð.

Ég er líklega eina manneskjan í þessu herbergi sem hægt er að spyrja hvar ég verði innan fimm ára. Ég hef ekki hugmynd um það.

En ég mun ekki verða arftaki neins af þjálfurunum hjá Red Bull. Ég vona að við getum komið á fót skipulagi þar sem þessar spurningar verða ekki bornar upp,“ sagði Klopp á fréttamannafundi Red Bull í Salzburg í dag.

Á meðal knattspyrnufélaga sem eru í eigu Red Bull eru RB Leipzig í Þýskalandi, Red Bull Salzburg í Austurríki, New York Red Bulls í Bandaríkjunum og Red Bull Bragantino í Brasilíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert