Juan Bernabe, fuglatemjari ítalska knattspyrnufélagsins Lazio, hefur verið rekinn úr starfi sínu eftir að hafa birt ljósmyndir af getnaðarlimi sínum á samfélagsmiðlum í kjölfar þess að hafa gengist undir typpastækkun.
Í tilkynningu frá Lazio sagði að félagið sé í áfalli yfir myndunum og að Bernabe hafi verið látinn taka pokann sinn tafarlaust.
Hann hefur frá árinu 2010 haft umsjón með lukkuerni Lazio, Olimpia, sem hefur flogið til Bernabe fyrir leiki en mun ekki gera áfram eftir að hann var rekinn.
Í tilkynningunni sagði að félagið veitti því skilning að stuðningsmenn væru svekktir að Olimpia myndi ekki lengur fljúga fyrir leiki en að ómögulegt væri að tengja sögulegt merki Lazio, þar sem örn er í aðalhlutverki, við einstakling á við Bernabe.
Bernabe varði ákvörðun sína að birta myndirnar í samtali við ítölsku útvarpsstöðina Radio24 og sagðist einungis vilja vekja athygli á möguleikanum að fara í aðgerð sem þessa og að nekt væri eðlileg.
Hann hefur áður komið sér í vandræði hjá félaginu þar sem Lazio úrskurðaði Bernabe í bann árið 2021 fyrir fasistakveðju eftir leik hjá liðinu.
Kvaðst hann þá ekki sjá eftir kveðjunni þar sem Bernabe væri aðdáandi fasísku einræðisherranna Benito Mussolini og Francisco Franco.